7.5.2007 | 21:44
X-D
Traust efnahagsstjórn er stærsta velferðarmálið. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins skilja vel samspil efnahagslífs, verðmætasköpunar og velferðar. Flokknum er best treystandi til þess að leggja grunn að velferð fjölskyldunnar og samfélagsins í heild og boðar ábyrga velferðarstefnu á traustum grunni.
Flestir Íslendingar vilja trausta stjórn á komandi árum undir forystu Geirs H. Haarde. Um 65% landsmanna vilja sjá Sjálfstæðisflokkinn áfram í stjórn og 54% landsmanna vilja að Geir H. Haarde verði áfram forsætisráðherra.Sjálfstæðisstefnan stuðlar að kraftmiklu og umburðalyndu samfélagi. Við sjálfstæðismenn viljum halda áfram í umboði þjóðarinnar að gera afburðasamfélag enn betra. Ég hvet ykkur því til þess að greiða Sjálfstæðisflokknum atkvæði ykkar í kosningunum 12. maí. X-D!
2.5.2007 | 17:39
Aldraðir - með virðingu að leiðarljósi
Það er ekki síst að þakka eldri kynslóðinni að Ísland er nú talið eitt samkeppnishæfasta land í heimi. Í þessu sambandi vil ég nefna þá sem nú eru 70 ára og eldri og hafa með framlagi sínu lagt grunninn að lífsgæðum okkar hinna. Eitt mikilvægasta málefni samtímans er að við tryggjum þeim góð lífsskilyrði. Okkur ber skylda til þess, nú þegar við búum við bestu lífskjör Íslandssögunnar og sérstaklega nú þegar ríkissjóður hefur nánast greitt niður allar sínar skuldir.
Valfrelsi er grundvallaratriði í lýðræðisþjóðfélagi. Það er metnaðarmál að búa eldri borgurum sem bestar aðstæður og veita fólki þjónustu í samræmi við einstaklingsbundnar þarfir. Þetta sjónarmið er afar mikilvægt því við vitum öll að þarfir þeirra 34 þúsund sem nú teljast eldri borgarar eru afar mismunandi. Virða á sjálfræði eldri borgara við val á þjónustu þegar þeir þurfa á stuðningi samfélgasins að halda. Þetta á ekki síst við um búsetuúrræði, félagslega þjónustu og hjúkrunarþjónustu til að styðja við sjálfstæða búsetu eins lengi og kostur er. Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir einstaklingsmiðaðri þjónustu við aldraða og útrýmingu á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum. Þegar er gert ráð fyrir byggingu tæplega 400 hjúkrunarrýma í Reykjavík.Aldraðir eiga að geta valið hvernig þeir vilja haga lífi sínu og starfi. Í eldra fólki býr mannauður, viska og skapandi kraftur. Ég er einlægt þeirrar skoðunar að við getum og eigum að skapa hér á Íslandi umhverfi þar sem ekki er litið á öldrun sem vandamál heldur sem sá eðlilegi þáttur mannlífsins sem hún er. Í febrúar sl. var haldin ráðstefna á vegum áhugamanna um málefni aldraðra undir yfirskriftinni: Er öldrun úreld? Þar fjölluðu ýmsir aðilar og meðal þeirra heimsþekktir fræðimenn um tækifærin sem felast í öldrun þjóðarinnar. Meðal þeirra var Dr. Elkhonon Goldberg prófessor í taugafræði við læknadeild New York háskóla sem rannsakað hefur aldurstengda þróun heilans. Með nýjum rannsóknaraðferðum og tækni hefur hann sýnt fram á kosti hins aldraða heila umfram þá sem yngri eru. Í ljós hefur komið að sérfræðiþekkingu er viðhaldið fram eftir aldri og verður hún oft dýpri og öflugri en áður, nýjar víddir og tengingar halda áfram að myndast í heilanum. Víðsýni í tíma og rúmi tengjist líka öldrun og viska reynslunnar tekur mið af langtímasýn þar sem lausn vandamála verður oft einfaldari og skynsamlegri en hjá þeim sem eru yngri og hraðari. Uppgjör við aldursfordóma er einn mikilvægasti liðurinn í jafnréttisbaráttu fyrir félagslegu réttlæti aldraðra. Við megum ekki láta nægja að hlúa að eldri borgurum, heldur auðsýna þeim tilhlýðilega virðingu og skapa nauðsynlega umgjörð til þess að hver og einn geti notið sín til fulls og nýtt með virkum hætti þá möguleika sem felast í því að vera kominn til vits og ára. Rökrétt er að nýta þekkingu og reynslu þeirra sem eldri eru og því er eðlilegra að líta á öldrun þjóðar sem auðlind en sem vandamál. Kominn er tími til að laða þá aldraða sem hafa til þess getu og vilja inn á atvinnumarkaðinn í stað þess að beina þeim markvisst út af honum.
Á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstæðisflokksins lýsti Geir H. Haarde því viðhorfi að þeir sem orðnir eru sjötugir hafi skilað sínu vinnuframlagi til samfélagsins og kjósi þeir að afla sér tekna á vinnumarkaði eftir það, hafi þær engin áhrif á lífeyrisgreiðslur almannatrygginga. Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir því að tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga verði að fullu afnumin.
Lífeyriskerfin þurfa að hafa innibyggða hvata fyrir sparnað meðan fólk er virkt í atvinnulífinu og fyrir áframhaldandi atvinnuþátttöku eftir að það er komið á lífeyrisaldur. Í ræðu formanns Sjálstæðisflokksins á landsfundi kom fram að gert er ráð fyrir að minnka enn frekar skerðingarhlutföll vegna lífeyrissjóðstekna og annarra tekna. Eins og fram kom hér á undan er ekki gert ráð fyrir að atvinnutekjur skerði lífeyri þeirra sem eru 70 ára og eldri. Einnig er gert ráð fyrir að allir eldri borgarar njóti lífeyris frá lífeyrissjóði, Geir H. Haarde nefndi á landsfundi kr. 25 þúsund að lágmarki.
Byggja þarf upp fyrirmyndarrekstur í öldrunarþjónustu með virðingu og væntumþykju að leiðarljósi. Við eigum að skoða kosti einkareksturs heimila og þjónustu fyrir aldraða og hvetja aldraða til dáða á þeim sviðum ekki síður en þá sem yngri eru. Þá þurfa öldrunarheimili að hafa eðlilegan aðgang að lánakerfi landsins eins og önnur fyrirtæki. Við eigum alls ekki að líta á aldraða sem sjúklinga eða óvinnufært fólk, heldur tryggja að aldraðir hafi kost á að taka sem lengst þátt í þjóðlífinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.5.2007 | 23:17
Útrýmum kynbundnum launamun
Lagalegt jafnrétti kynjanna hefur verið til staðar hér á landi í um 40 ár. Þrátt fyrir þetta er óútskýrður kynbundinn launamunur á Íslandi 16% og hefur ekki breyst mikið undanfarin ár. Ljóst er að okkur miðar alltof hægt í áttina að launajafnrétti, við þurfum að vanda okkur og ganga í verkið af alvöru. Launamismunur kynjanna er ekki einkamál kvenna heldur þurfa stjórnmálamenn, atvinnulífið og aðrir hagsmunaaðilar að taka höndum saman og vinna markvisst í að útrýma þessum launamun. Kynbundinn launamun á ekki að líða.
Hvað er til ráða?
Við þekkjum orsakir launamunarins ekki nægilega vel til að vita hvaða aðgerðir skipta mestu máli. En skilningur á grunnorsökum er mikilvægur ef við viljum fara í markvissar aðgerðir til að breyta stöðunni. Ólíklegt er að við finnum einhverja töfralausn við þessum vanda, líklegt er að þurfi samspil ýmissa aðgerða í samvinnu við hagsmunaaðila. Ég ætla að velta upp nokkrum mögulegum orsökum kynbundins launamunar og bendi á að þetta er hvorki tæmandi listi né forgangsraðaður:
1. Viðhorf kynjanna til launa
Rannsóknir benda til þess að konur vænti lægri launa og sætti sig við lægri laun en karlar. Nokkur dæmi eru um þetta, meðal annars í könnunum VR undanfarin ár. Í rannsókn sem framkvæmd var af nemendum í Félagsvísindadeild HÍ og var birt árið 2000 áttu þátttakendur að meta sanngjörn laun fyrir starfsmenn sem kynntir voru til leiks á pappír með ferilskrám. Þátttakendur vissu ekki að ferilskrárnar voru paraðar þannig að Jón Jónsson og Jóna Jónsdóttir litu nákvæmlega eins út á pappírnum og þannig voru nokkur pör kynnt í rannsókninni. Vart þarf að taka fram að þátttakandi sem lagði mat á sanngjörn laun fyrir Jón Jónson sá ekki ferilskrá Jónu Jónsdóttur (og öfugt). Í ljós kom að þátttakendur töldu að konur ættu að fá lægri laun en karlar og einnig að konur töldu að konur ættu að fá mun lægri laun en karlar, þ.e. munurinn var ýktari meðal kvenþátttakenda. Þessa rannsókn ætla ég ekki að fjalla um nánar en verið er að endurtaka hana í ögn breyttri útgáfu í Háskólanum í Reykjavík í tengslum við verkefnið MannAuður sem kynnt verður nánar síðar. Rannsóknin var unnin með styrk frá Jafnréttissjóði og verða niðurstöður hennar birtar 19. júní n.k. en samkvæmt heimildum eru þær á þann veg að konur virðast sætta sig við lægri laun en karlar þó þær vilji í raun fá sömu laun. Nýverið var sagt í fjölmiðlum frá svokölluðumm raunveruleik sem er gagnvirkur hlutverkaleikur ætlaður nemendum í 10. bekk í grunnskólum. Leikurinn á að endurspegla raunverulegt líf og gengur út á að fræða nemendur um ábyrga meðferð fjármála og um neytendamál.
Raunveruleikurinn er einnig keppni milli nemenda á öllu landinu og alls tóku 1.627 einstaklingar þátt í honum. Þátttakendur þurftu að leysa verkefni, finna sér vinnu eða leggja stund á nám, kaupa í matinn og láta enda ná saman. Niðurstöður voru athyglisverðar, meðaltekjur þátttakenda voru um 177 þúsund krónur á mánuði sem er það sama og var í leiknum fyrir ári síðan. Hins vegar hækkuðu tekjur karlkyns nemenda lítillega frá fyrra ári og voru 182 þúsund krónur en kvenkynsnemendur sættu sig hins vegar við um 170 þúsund á mánuði.
Af ofangreindu má álykta að viðhorf kynjanna til launa séu mismunandi. Ég held ekki að verið sé að varpa sökinni á konur þótt umræða fari fram um að þær sætti sig við lægri laun, þvert á móti tel ég mikilvægt að skoða hvað getur verið þarna að baki. Ég hlakka til að sjá niðurstöður rannsóknarinnar í HR, held að hún geti varpað ljósi á mismunandi viðhorf og væntingar kynjanna til launa.
2. Konur eru vinnukonur kerfisins
Atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi er um 80%, atvinnuþátttaka karla er um 90%. Þegar við skoðum val kvenna á störfum kemur ekki á óvart að margar þeirra helga sig störfum í mennta- og í heilbrigðisþjónustu. Um 60% kvenna á íslenskum vinnumarkaði vinna hjá ríki og sveitarfélögum á meðan rétt ríflega 20% af körlum vinna hjá hinu opinbera.
Á undanförnum árum hafa ríki og sveitarfélög dregið mjög úr eigin atvinnustarfsemi á flestum sviðum, þó ekki á þeim sviðum sem konur hafa einkum starfað. Enda hefur komið fram í rannsóknum að einungis einn af hverjum fjórum frumkvöðlum hér á landi er kona á Íslandi.
Ég bloggaði um þetta áður og bendi á færslu frá því í síðustu viku.
3. Þrjú störf á heimili
Á heimilum þar sem eru hjón, börn og almennt heimilishald er oft talað um þriðja starfið og þá í þeirri merkingu að foreldrar vinni báðir utan heimilis auk þess að sinna ýmsu öðru. Í þriðja starfinu er að mörgu að hyggja, t.d. samvistum fjölskyldunnar, uppeldi, umönnun, þrifum, innkaupum, matseld, vina- og fjölskyldutengslum, samfélagsþjónustu, þjónustu við foreldra, og svo mætti áfram telja. Þessu þriðja, fjölþætta og mikilvæga starfi þarf að sinna. Vafalaust er verkaskipting milli hjóna mismunandi eftir einstaklingum og aðstæðum og vil ég ekki fara mikið í getgátur um stöðu kvenna og karla á heimilum landsins. Augljóst er að þjóðfélagsbreytingar samfara sívaxandi atvinnuþátttaka kvenna og fæðingarorlofi feðra breyti verkaskiptingu innan heimilis þegar til lengri tíma er litið. Verið er að gera viðamiklar rannsóknir á áhrifum fæðingarorlofs feðra og kæmi ekki á óvart að það fyrirkomulag hafi áhrif í þá veru að auka jafnrétti á heimilum landsmanna enda ein stærsta breyting í jafnréttismálum á síðari árum. Eftir situr að óútskýrður launamunur gæti átt að hluta til rætur að rekja til ójafnra aðstæðna kynjanna í tengslum við þriðja starfið. Í áðurnefndum launakönnunum VR hefur komið í ljós að konur hafa meiri sveigjanleika í vinnu og karlar lengri vinnutíma, sem gæti verið til merkis um ójafna verkaskiptingu á heimilinu.
Og hvað svo?
Við þurfum að greina orsakir, fá góða umræðu um jafnréttisfrumvarpið, læra um aðgerðir sem hafa virkað hjá öðrum þjóðum og vinda okkur í verkefnið. Ég er bjartsýn þrátt fyrir óþolandi stöðu, ég er bjartsýn vegna þess að tími er kominn til að vinda sér í verkið, ég er bjartsýn vegna þess að þrátt fyrir að verkefnið sé flókið þá er það spennandi og þess virði að berjast fyrir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
30.4.2007 | 14:07
Hver vill þriggja flokka vinstri stjórn?
Landslagið er að skýrast. Valkostirnir í kosningunum þann 12. maí eru að mínu mati annars vegar áframhaldandi hagsæld þjóðarinnar undir forystu Sjálfstæðisflokks og hins vegar þriggja flokka vinstri stjórn. Því spyr ég einfaldlega: Hver vill þriggja flokka vinstri stjórn?
Af þessu tilefni vil ég deila með ykkur reynslusögu úr mínu eigin lífi. Þegar við hjónin komum heim frá námi í útlöndum urðum við bæði atvinnulaus. Árið 1991 lauk ég doktorsnámi frá háskóla í Bandaríkjunum og maðurinn minn lauk skömmu síðar meistaraprófi frá sama háskóla. Við hjónum vildum heim að loknu námi ásamt dóttur okkar, en foreldrar og vinir vöruðu okkur við ástandinu í landinu. Það væri ekki skynsamlegt að koma heim því hér væri sívaxandi atvinnuleysi og allt í óreiðu eftir fráfarandi vinstri stjórn sem lét af störfum 1991. Betra væri að koma heim síðar þar sem við hjónin höfðum bæði atvinnutækifæri í útlöndum og gætum haft nóg að gera þar.
Þrátt fyrir þessar fregnir héldum við heim af einskærri föðurlandsást. Vongóð og bjartsýn keyptum við okkur litla blokkaríbúð og byrjuðum að leita að störfum við hæfi. Til að gera langa sögu stutta þá fékk ég eitt verkefni og maðurinn minn annað, en fasta vinnu fengum við ekki enda 12% atvinnuleysi í landinu. Verkefnin sem við hjónin sinntum gáfu ekki af sér nægilegt fjármagn til að greiða afborganir af húsnæðinu og fæða fjölskylduna. Eftir um það bil 5 mánuði gáfumst við upp, seldum íbúðina og fluttum enn einu sinni alla búslóðina og fjölskylduna til útlanda. Foreldrar mínir höfðu rétt fyrir sér, það var ekki vinna fyrir okkur í landinu, ekki pláss fyrir menntað vinnuafl, ekki tækifæri fyrir ungt og frískt fólk. Ég þarf vart að lýsa höfnunartilfinningunni sem við urðum fyrir!!!!!
Í dag fyrir kosningar er atvinnuleysi ekki í umræðunni! Skuldir ríkissjóðs eru ekki til staðar og því ekki í umræðunni. Um þessar mundir í kosningabaráttunni fjalla andstæðingar okkar í Samfylkingunni aðallega um biðlista eftir hjúkrunarrýmum og loforð í þeim efnum. Á sama tíma hafa þegar verið gerðar áætlanir af hálfu stjórnvalda um að byggja yfir 370 hjúkrunarrými á næstunni, því eru loforðin í raun um það sem þegar er í farvegi. BUGL biðlistarnir eru í umræðunni og vissulega ólíðandi, en eins og margir vita er verið að byggja nýja göngudeild fyrir BUGL og búist er við að taka fyrsta áfanga hennar í notkun á næsta ári.
Vissulega eru mörg verkefni framundan og ekki síst í velferðarmálum þjóðarinnar. Sjálfstæðisflokknum boðar áframhaldandi verðmætasköpun í samfélaginu og ábyrga velferðarstefnu á traustum grunni, ekki skuldsetta velferðarstefnu andstæðinganna. Forysta flokksins skilur samspil velferðar og verðmætasköpunar. Því hvet ég landsmenn til að styðja Sjálfstæðisflokkinn og kjósa hann þann 12. maí, hinn valkosturinn er þriggja flokka vinstri stjórn með tilheyrandi áhættu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
25.4.2007 | 22:11
Dagur umhverfisins - sérstaða Íslands
Ýmsar þjóðir hafa gripið til mótaðgerða til að draga úr styrk gróðurhúsalofttegunda og í undirbúningi eru lög og reglugerðir víða um heim. Evrópursambandið hefur ákveðið að beita sér fyrir 20-30% minnkun koldíoxíðlosunar (CO2) til ársins 2020, Bretar eru með löggjöf í undirbúningi um loftlagsmál og gera ráð fyrir 60% minnkun á CO2 losun til ársins 2050 og Íslendingar hafa riðið á vaðið og samþykkt lög um loftlagsbreytingar.
David Warrilow fulltrúi Breta í IPCC (Intergovernmental Panel for Climate Change) flutti erindi í Háskóla Íslands þann 10. apríl sl. Hann telur að þjóðir heims þurfi að grípa til aðgerða á næstu 10-15 árum til að bregðast við gróðurhúsavánni. Hann benti á nokkrar aðgerðir í þessu sambandi m.a. mikilvægi þess minnka notkun jarðefnaeldsneytis í heiminum og auka vægi endurnýjanlegra orkugjafa, en á því sviði hefur Ísland algera sérstöðu meðal þjóða heims:
- Ríflega 70 % af orkunotkun hér á landi kemur frá endurnýjanlegum orkulindum
- Engin önnur þjóð nýtir endurnýjanlega orkugjafa í hærra hlutfalli en við
- Einungis um 3% af orkunotkun OECD þjóða kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum samkvæmt skýrslu alþjóðaumhverfisstofnunarinnar (tölur frá 2004)
Hér hefur á sl. 70 árum þróast þekking á jarðvarmaorku sem er einstök, þökk sé Jóhannesi Zoega og hans félögum. Háskólarnir í landinu ásamt orkufyrirtækjum og einkaaðilum munu af krafti halda áfram rannsóknum og þróun á svið jarðvarma og vistvænna orkugjafa í framtíðinni. Nú þegar þjóðir heims eru að setja sér markmið í tengslum við vistvæna orku liggja fyrir gríðarleg tækifæri sem við eigum að nýta okkur. Ég tel að vistvæn orka, þekking og beislun á orkunni og framtíðarrannsóknir verði okkur verðmætari en olían Norðmönnum!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.4.2007 | 14:18
Virkjum kraft og frumkvæði kvenna
Ég hef óbilandi trú á íslenskum konum, krafti þeirra, dugnaði, metnaði og þrautseigju. Sem rektor í HR fylgdist ég vel með þeim konum sem þar voru í námi og starfi. Þvílíkur fjársjóður sem við eigum í ungu konunum okkar og reyndar í öllum konum.
Hlutfallslega er atvinnuþátttaka kvenna hér á landi með því hæsta sem þekkist eða um 80%, margar þeirra helga sig störfum í þágu menntunar og heilbrigðisþjónustu. Því kemur ekki á óvart að um 60% kvenna á íslenskum vinnumarkaði vinna hjá ríki og sveitarfélögum. Þessa staðreynd benti Margrét Pála Ólafsdóttir á í erindi sem hún flutti í mars sl. en hún er formaður Samtaka sjálfstæðra skóla eins og margir vita. Margrét Pála kallaði konur í opinberum rekstri vinnukonur kerfisins.
Á undanförnum árum hafa ríki og sveitarfélög dregið mjög úr eigin atvinnustarfsemi. Hér er ekki lengur rekin bæjarútgerð, ekki ríkisreknir bankar eða símafyrirtæki. Íslenskir karlmenn starfa flestir í einkageiranum, einungis um 20% þeirra starfa hjá hinu opinbera. Undanfarin ár hafa þeir í auknum mæli stofnað eigin fyrirtæki. Í GEM (Global Entrepreneurship Monitor) rannsókninni sem árlega er gerð í HR og í háskólum víða um heim til að kanna það hlutfall landsmanna sem stofna fyrirtæki og skapa störf kemur í ljós að við erum virkust Evrópuþjóða í frumkvöðlastarfsemi. Ef við skoðum hins vegar hlut kynjanna kemur í ljós að hlutfall kvenna sem stunda frumkvöðlastarf er miklum mun lægra hér á landi en í nágrannalöndunum.
Ég tek undir með Margréti Pálu og er sannfærð um að sjálfstæður rekstur t.d. í grunnskólum landsins muni leysa úr læðingi mikinn kraft og sköpunargleði. Með sjálfstæðum rekstri köllum við fram frumkvæði til að skynja þarfir samfélagsins. Á Íslandi eru hlutfallslega fáir grunnskólanemar í sjálfstæðu skólunum eða um 1%, en flestir starfsmenn skólanna eru konur. Fjölgun og efling sjálfstæðra grunnskóla myndi auka valkosti og styrkja um leið starfsemi allra grunnskóla, líka þeirra sem reknir eru af sveitarfélögunum. Eðlilegt er að hlutfall barna sem stunda nám í sjálfstæðum skólum hér á landi verði svipað og í nágrannalöndunum eða um 10-12%. Ég treysti konum vel til þess að taka frumkvæðið og takast á við þetta verkefni.
Í heilbrigðiskerfinu starfa margar öflugar konur. Vissulega er einnig mikið af tækifærum þar til að veita þjónustu á forsendum eigin rekstrar og efa ég ekki að konur stæðu sig vel í slíkum rekstri.
Í einkarekstri í grunnskólum og heilbrigðiskerfinu geri ég ráð fyrir að ríkið fjármagni þjónustuna með þjónustusamningi við þá aðila sem uppfylla sett skilyrði. Þannig er ekki horfið frá þeirri hugmyndafræði að ríkið greiði fyrir menntun og heilbrigðisþjónustu. Í sjálfstæðum rekstri mun frumkvæði og kraftur kvenna framkallast og nýtast í þágu samfélagsins. Þetta er ekki sagt til þess að varpa rýrð á þau störf sem nú eru unnin á vegum hins opinbera heldur til þess að fjölga valkostum bæði fyrir þá sem veita þjónustuna og hina sem þiggja hana. Reynsla kvenna, stjórnunarstíll og kraftur á að njóta sín með margvíslegum hætti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.4.2007 | 17:46
Byggt á traustum grunni
Yfirskrift landsfundar Sjálfstæðisflokksins í ár var Nýir tímar á traustum grunni. Þessi orð minna á kjarnann í bókinni Built to last (í lauslegri þýðingu Byggt á traustum grunni) eftir þá Jim Collins og Jerry Porras prófessora við Stanford háskóla. Í bókinni sem var gefin út árið 1994 er sagt frá viðamikilli vísindalegri rannsókn á helstu leiðum til árangursríkrar stjórnunar. Fjölmargir fræðimenn tóku þátt í rannsókninni sem stóð í nokkur ár. Í kafla um niðurstöður er fjallað um það sem greinir afburðafyrirtæki frá öðrum vel reknum fyrirtækjum, meðal þess eru þrír mikilvægir þættir:
- Til grundvallar öllu starfi fyrirmyndarfyrirtækja eru sterk grunngildi sem hafa fylgt starfseminni í gegnum tíðina
- Mikil áhersla er á að varðveita grunngildin og hugmyndafræðina og á sama tíma fagna breytingum og framförum
- Takmarkandi EÐA væðingu er hafnað og OG snilldinni fagnað
Þegar þessir þættir eru skoðaðir í tengslum við Sjálfstæðisflokkinn má finna samhljóm sem gæti mögulega skýrt hversu vel flokkurinn hefur staðist tímans tönn, hann er traustur og óhagganlegur en á sama tíma snarpur og framsækinn.
Sjálfstæðismenn hafa ætíð staðið fast á grunngildum sínum, það er erfitt að setja þau fram í stuttu máli en þau ganga út á trúnna á frelsi einstaklingsins og stuðning við þá sem á þurfa að halda. Á sama tíma er samfélagið aðlagað síbreytilegum aðstæðum með nokkur veigamikil leiðarljós í farteskinu, en meðal þeirra eru:
- Umburðalyndi gagnvart mismunandi lífsviðhorfum og lífsháttum
- Sameiginlegir hagsmuni ólíkra þjóðfélagshópa
- Efasemdir um að ríkisvaldið geti leyst öll mál
Sjálfstæðismenn virðast skilja OG snilldina nokkuð vel. Við föllumst ekki á ýmsar heimatilbúnar þversagnir, við takmörkum okkur ekki. Þannig hafnar flokkurinn því að lífið sé svart eða hvítt, grátt eða grænt, það er svart og hvítt, grátt og grænt, lífið er í öllum regnbogans litum.
Samkvæmt OG snilldinni fer ýmislegt saman sem fólk tengir ekki endilega við fyrstu sýn, t.d. fara samstarf og samkeppni ágætlega saman og eru ekki andstæður. Þú getur verið í senn bæði latur og duglegur, þjóðernissinni og alheimssinni, íhaldssamur og snarpur, lítill kosnaður getur farið saman með háum gæðum, lágir skattar með háum skattekjum, sköpun og ögun geta farið saman, þú getur skipulagt í þaula og samt sem áður nýtt tækifæri sem gefast, þú getur sjórnast bæði af hugsjón og raunsæi, sinnt velferð og verðmætasköpun. Afrakstur sjálfstæðisstefnunnar á undanförnum árum er undraverður. Íslenskt efnahagslíf hefur einkennst af mikilli grósku, árangurinn hefur verið slíkur að eftir honum er tekið víða um heim. Við höfum horfið frá einhæfu atvinnulífi, umfangsmiklum ríkisrekstri og lántökum hins opinbera og yfir í efnahagslíf sem hvílir á mörgum stoðum, atvinnulíf sem einkennist af samkeppnishæfni, frumkvæði og krafti, og á sama tíma hafa innviðir samfélagsins styrkst til muna. Eftirfarandi þættir eru vitnisburður um hvernig til hefur tekist:
- Landsframleiðslan hefur aukist um ríflega 50% sl. áratug
- Atvinnuleysi er hér mun minna en í samanburðarlöndunum (um 2%)
- Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist um 60% frá árinu 1995 og þar af um tæp 20% á yfirstandandi kjörtímabili
- Ríkissjóður er nær skuldlaus, en árið 2001 námu skuldir um 21% af landsframleiðslu. Ríkissjóður greiðir nánast enga vexti.
- Tekjuskattar fyrirtækja hafa lækkað, voru 33% árið 1997 en eru nú 18%
- Innheimtir tekjuskattar af fyrirtækjum voru kr. 5 milljarðar árið 1997
- Tekjuskattar af fyrirtækjum eru átælaðir kr. 35 milljarðar árið 2007
- Tekjuskattar á einstaklinga voru 41,9% árið 1997 en eru nú 35,7%
- Tekjuskattar af einstaklingum voru kr. 27 milljarðar 1997
- Tekjukattar af einstaklingum eru áætlaðir kr. 75 milljarðar 2007
Skattalækkanir undanfarinna ára hafa leyst úr læðingi mikinn kraft sem lýsir sér í öflugu atvinnulífi þjóðarinnar, frumkvæði og útrás. Á sama tíma hafa tekjur ríkissjóðs margfaldast. Snilld Sjálfstæðisflokksins hefur fengið að sanna sig.
Kosningarnar nú í vor snúast um marga þætti en ekki síst áframhaldandi verðmætasköpun atvinnulífsins og velferð einstaklinganna. Mörg spennandi verkefni bíða okkar á sviði velferðarmála, mennta- og umhverfismála. Við Íslendingar verðum að forðast skuldsetta velferðarstefnu, þ.e. að kæla hagkerfið og um leið stórauka útgjöld til velferðarmála, slík stefna snýst á nokkrum árum upp í andhverfu sína. Sjálfstæðismenn skilja samspil velferðar og verðmætasköpunar og boða ábyrga velferðarstefnu á traustum grunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)