Aldraðir - með virðingu að leiðarljósi

Það er ekki síst að þakka eldri kynslóðinni að Ísland er nú talið eitt samkeppnishæfasta land í heimi.  Í þessu sambandi vil ég nefna þá sem nú eru 70 ára og eldri og hafa með framlagi sínu lagt grunninn að lífsgæðum okkar hinna. Eitt mikilvægasta málefni samtímans er að við tryggjum þeim góð lífsskilyrði. Okkur ber skylda til þess, nú þegar við búum við bestu lífskjör Íslandssögunnar og sérstaklega nú þegar ríkissjóður hefur nánast greitt niður allar sínar skuldir.  

Valfrelsi er grundvallaratriði í lýðræðisþjóðfélagi.  Það er metnaðarmál að búa eldri borgurum sem bestar aðstæður og veita fólki þjónustu í samræmi við einstaklingsbundnar þarfir.  Þetta sjónarmið er afar mikilvægt því við vitum öll að þarfir þeirra 34 þúsund sem nú teljast eldri borgarar eru afar mismunandi.  Virða á sjálfræði eldri borgara við val á þjónustu þegar þeir þurfa á stuðningi samfélgasins að halda.  Þetta á ekki síst við um búsetuúrræði, félagslega þjónustu og hjúkrunarþjónustu til að styðja við sjálfstæða búsetu eins lengi og kostur er. Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir einstaklingsmiðaðri þjónustu við aldraða og útrýmingu á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum. Þegar er gert ráð fyrir byggingu tæplega 400 hjúkrunarrýma í Reykjavík. 

Aldraðir eiga að geta valið hvernig þeir vilja haga lífi sínu og starfi.  Í eldra fólki býr mannauður, viska og skapandi kraftur. Ég er einlægt þeirrar skoðunar að við getum og eigum að skapa hér á Íslandi umhverfi þar sem ekki er litið á öldrun sem vandamál heldur sem sá eðlilegi þáttur mannlífsins sem hún er. Í febrúar sl. var haldin ráðstefna á vegum áhugamanna um málefni aldraðra undir yfirskriftinni: Er öldrun úreld?  Þar fjölluðu ýmsir aðilar og meðal þeirra heimsþekktir fræðimenn um tækifærin sem felast í öldrun þjóðarinnar.  Meðal þeirra var Dr. Elkhonon Goldberg prófessor í taugafræði við læknadeild New York háskóla sem rannsakað hefur aldurstengda þróun heilans.  Með nýjum rannsóknaraðferðum og tækni hefur hann sýnt fram á kosti hins aldraða heila umfram þá sem yngri eru.  Í ljós hefur komið að sérfræðiþekkingu er viðhaldið fram eftir aldri og verður hún oft dýpri og öflugri en áður, nýjar víddir og tengingar halda áfram að myndast í heilanum. Víðsýni í tíma og rúmi tengjist líka öldrun og viska reynslunnar tekur mið af langtímasýn þar sem lausn vandamála verður oft einfaldari og skynsamlegri en hjá þeim sem eru yngri og hraðari.  Uppgjör við aldursfordóma er einn mikilvægasti liðurinn í jafnréttisbaráttu fyrir félagslegu réttlæti aldraðra. Við megum ekki láta nægja að hlúa að eldri borgurum, heldur auðsýna þeim tilhlýðilega virðingu og skapa nauðsynlega umgjörð til þess að hver og einn geti notið sín til fulls og nýtt með virkum hætti þá möguleika sem felast í því að vera kominn til vits og ára. Rökrétt er að nýta þekkingu og reynslu þeirra sem eldri eru og því er eðlilegra að líta á öldrun þjóðar sem auðlind en sem vandamál. Kominn er tími til að laða þá aldraða sem hafa til þess getu og vilja inn á atvinnumarkaðinn í stað þess að beina þeim markvisst út af honum. 

Á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstæðisflokksins lýsti Geir H. Haarde því viðhorfi að þeir sem orðnir eru sjötugir hafi skilað sínu vinnuframlagi til samfélagsins og kjósi þeir að afla sér tekna á vinnumarkaði eftir það, hafi þær engin áhrif á lífeyrisgreiðslur almannatrygginga.  Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir því að tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga verði að fullu afnumin.

 

Lífeyriskerfin þurfa að hafa innibyggða hvata fyrir sparnað meðan fólk er virkt í atvinnulífinu og fyrir áframhaldandi atvinnuþátttöku eftir að það er komið á lífeyrisaldur.  Í ræðu formanns Sjálstæðisflokksins á landsfundi kom fram að gert er ráð fyrir að minnka enn frekar skerðingarhlutföll vegna lífeyrissjóðstekna og annarra tekna.  Eins og fram kom hér á undan er ekki gert ráð fyrir að atvinnutekjur skerði lífeyri þeirra sem eru 70 ára og eldri.  Einnig er gert ráð fyrir að allir eldri borgarar njóti lífeyris frá lífeyrissjóði, Geir H. Haarde nefndi á landsfundi kr. 25 þúsund að lágmarki. 

Byggja þarf upp fyrirmyndarrekstur í öldrunarþjónustu með virðingu og væntumþykju að leiðarljósi. Við eigum að skoða kosti einkareksturs heimila og þjónustu fyrir aldraða og hvetja aldraða til dáða á þeim sviðum ekki síður en þá sem yngri eru.  Þá þurfa öldrunarheimili að hafa eðlilegan aðgang að lánakerfi landsins eins og önnur fyrirtæki.  Við eigum alls ekki að líta á aldraða sem sjúklinga eða óvinnufært fólk, heldur tryggja að aldraðir hafi kost á að taka sem lengst þátt í þjóðlífinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband