Útrýmum kynbundnum launamun

Lagalegt jafnrétti kynjanna hefur verið til staðar hér á landi í um 40 ár.  Þrátt fyrir þetta er óútskýrður kynbundinn launamunur á Íslandi 16% og hefur ekki breyst mikið undanfarin ár.  Ljóst er að okkur miðar alltof hægt í áttina að launajafnrétti, við þurfum að vanda okkur og ganga í verkið af alvöru. Launamismunur kynjanna er ekki einkamál kvenna heldur þurfa stjórnmálamenn, atvinnulífið og aðrir hagsmunaaðilar að taka höndum saman og vinna markvisst í að útrýma þessum launamun.  Kynbundinn launamun á ekki að líða.  

Hvað er til ráða?

Við þekkjum orsakir launamunarins ekki nægilega vel til að vita hvaða aðgerðir skipta mestu máli. En skilningur á grunnorsökum er mikilvægur ef við viljum fara í markvissar aðgerðir til að breyta stöðunni.  Ólíklegt er að við finnum einhverja töfralausn við þessum vanda, líklegt er að þurfi samspil ýmissa aðgerða í samvinnu við hagsmunaaðila. Ég ætla að velta upp nokkrum mögulegum orsökum kynbundins launamunar og bendi á að þetta er hvorki tæmandi listi né forgangsraðaður:

 1.                  Viðhorf kynjanna til launa

Rannsóknir benda til þess að konur vænti lægri launa og sætti sig við lægri laun en karlar.  Nokkur dæmi eru um þetta, meðal annars í könnunum VR undanfarin ár.  Í rannsókn sem framkvæmd var af nemendum í Félagsvísindadeild HÍ og var birt árið 2000 áttu þátttakendur að meta sanngjörn laun fyrir starfsmenn sem kynntir voru til leiks á pappír með ferilskrám.  Þátttakendur vissu ekki að ferilskrárnar voru paraðar þannig að Jón Jónsson og Jóna Jónsdóttir litu nákvæmlega eins út á pappírnum og þannig voru nokkur pör kynnt í rannsókninni.  Vart þarf að taka fram að þátttakandi sem lagði mat á sanngjörn laun fyrir Jón Jónson sá ekki ferilskrá Jónu Jónsdóttur (og öfugt).  Í ljós kom að þátttakendur töldu að konur ættu að fá lægri laun en karlar og einnig að konur töldu að konur ættu að fá mun lægri laun en karlar, þ.e. munurinn var ýktari meðal kvenþátttakenda.  Þessa rannsókn ætla ég ekki að fjalla um nánar en verið er að endurtaka hana í ögn breyttri útgáfu í Háskólanum í Reykjavík í tengslum við verkefnið MannAuður sem kynnt verður nánar síðar.  Rannsóknin var unnin með styrk frá Jafnréttissjóði og verða niðurstöður hennar birtar 19. júní n.k. en samkvæmt heimildum eru þær á þann veg að konur virðast sætta sig við lægri laun en karlar þó þær vilji í raun fá sömu laun.  Nýverið var sagt í fjölmiðlum frá svokölluðumm raunveruleik sem er gagnvirkur hlutverkaleikur ætlaður nemendum í 10. bekk í grunnskólum.  Leikurinn á að endurspegla raunverulegt líf og gengur út á að fræða nemendur um ábyrga meðferð fjármála og um neytendamál. 

Raunveruleikurinn er einnig keppni milli nemenda á öllu landinu og alls tóku 1.627 einstaklingar þátt í honum.  Þátttakendur þurftu að leysa verkefni, finna sér vinnu eða leggja stund á nám, kaupa í matinn og láta enda ná saman. Niðurstöður voru athyglisverðar, meðaltekjur þátttakenda voru um 177 þúsund krónur á mánuði sem er það sama og var í leiknum fyrir ári síðan.  Hins vegar hækkuðu tekjur karlkyns nemenda lítillega frá fyrra ári og voru 182 þúsund krónur en kvenkynsnemendur sættu sig hins vegar við um 170 þúsund á mánuði. 

Af ofangreindu má álykta að viðhorf kynjanna til launa séu mismunandi.  Ég held ekki að verið sé að varpa sökinni á konur þótt umræða fari fram um að þær sætti sig við lægri laun, þvert á móti tel ég mikilvægt að skoða hvað getur verið þarna að baki.  Ég hlakka til að sjá niðurstöður rannsóknarinnar í HR, held að hún geti varpað ljósi á mismunandi viðhorf og væntingar kynjanna til launa. 

2.         Konur eru vinnukonur kerfisins

Atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi er um 80%, atvinnuþátttaka karla er um 90%.  Þegar við skoðum val kvenna á störfum kemur ekki á óvart að margar þeirra helga sig störfum í mennta- og í heilbrigðisþjónustu.  Um 60% kvenna á íslenskum vinnumarkaði vinna hjá ríki og sveitarfélögum á meðan rétt ríflega 20% af körlum vinna hjá hinu opinbera. 

 Á undanförnum árum hafa ríki og sveitarfélög dregið mjög úr eigin atvinnustarfsemi á flestum sviðum, þó ekki á þeim sviðum sem konur hafa einkum starfað.  Enda hefur komið fram í rannsóknum að einungis einn af hverjum fjórum frumkvöðlum hér á landi er kona á Íslandi.

Ég bloggaði um þetta áður og bendi á færslu frá því í síðustu viku.



3.         Þrjú störf á heimili

Á heimilum þar sem eru hjón, börn og almennt heimilishald er oft talað um þriðja starfið og þá í þeirri merkingu að foreldrar vinni báðir utan heimilis auk þess að sinna ýmsu öðru.  Í þriðja starfinu er að mörgu að hyggja, t.d. samvistum fjölskyldunnar, uppeldi, umönnun, þrifum, innkaupum, matseld, vina- og fjölskyldutengslum, samfélagsþjónustu, þjónustu við foreldra, og svo mætti áfram telja.  Þessu þriðja, fjölþætta og mikilvæga starfi þarf að sinna.  Vafalaust er verkaskipting milli hjóna mismunandi eftir einstaklingum og aðstæðum og vil ég ekki fara mikið í getgátur um stöðu kvenna og karla á heimilum landsins.   Augljóst er að þjóðfélagsbreytingar samfara sívaxandi atvinnuþátttaka kvenna og fæðingarorlofi feðra breyti verkaskiptingu innan heimilis þegar til lengri tíma er litið.  Verið er að gera viðamiklar rannsóknir á áhrifum fæðingarorlofs feðra og kæmi ekki á óvart að það fyrirkomulag hafi áhrif í þá veru að auka jafnrétti á heimilum landsmanna enda ein stærsta breyting í jafnréttismálum á síðari árum. Eftir situr að óútskýrður launamunur gæti átt að hluta til rætur að rekja til ójafnra aðstæðna kynjanna í tengslum við þriðja starfið.  Í áðurnefndum launakönnunum VR hefur komið í ljós að konur hafa meiri sveigjanleika í vinnu og karlar lengri vinnutíma, sem gæti verið til merkis um ójafna verkaskiptingu á heimilinu. 

Og hvað svo?

Við þurfum að greina  orsakir, fá góða umræðu um jafnréttisfrumvarpið, læra um aðgerðir sem hafa virkað hjá öðrum þjóðum og vinda okkur í verkefnið. Ég er bjartsýn þrátt fyrir óþolandi stöðu, ég er bjartsýn vegna þess að tími er kominn til að vinda sér í verkið, ég er bjartsýn vegna þess að þrátt fyrir að verkefnið sé flókið þá er það spennandi og þess virði að berjast fyrir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Það er þægilegt og skemmtilegt að lesa grein eins og þessa, um kynbundin launamun sem er algerlega laus við ofstæki, aðeins reynt reynt skilja vandann, ég vildi að fleiri nálguðust málinn á þenna hátt.

Benedikt Halldórsson, 1.5.2007 kl. 23:39

2 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Tek undir með Benedikt, besta grein sem ég hef lesið um kynbundinn launamun eins og þín var von á vísa.

Langar að bæta tveimur áhrifaþáttum við listann sem koma upp í hugann:

A. Fæðingarorlof

Í dag hafa feður þrjá mánuði í fæðingarorlof, mæður þrjá mánuði og loks geta foreldrarnir skipt seinustu þremur mánuðunum á milli sín.  Ég man í fljótu bragði ekki eftir neinu tilfelli sem ég þekki þar sem móðirin tók ekki þessa þrjá mánuði sem skipta má milli foreldranna.  Mæðurnar taka því yfirleitt 6 mánuði og feðurnir 3 mánuði.  Reyndar þekki ég líka nokkrar mæður sem hafa þegið hálf laun í 12 mánuði en ég þekki engan föður sem hefur þegið hálf laun í 6 mánuði, hvað þá heldur lengur.

Hvort sem okkur finnst það rétt eða rangt dregur þessi munur milli kynjanna úr samkeppnishæfni kvenna á vinnumarkaði, sérstaklega í smærri fyrirtækjum.  Í fyrirtæki sem samanstendur af 5-10 starfsmönnum er auðvitað stórmál ef einn starfsmaður, hvað þá heldur fleiri, fer í 6 mánaða fæðingarorlof svo ekki sé talað um 12 mánuði.  Raunar er stórmál ef einhver fer í 3 mánuði en þó sínu skárra.

Skref í rétta átt væri að mæður fengju 6 mánuði og feður 6 mánuði í fæðingarorlof.  Það myndi klárlega vera svolítið skref í áttina að því að jafna samkeppnisstöðu kvenna og karla.

B. Vægi annarrar þátta í heildarumbun starfa

Rannsóknir sýna að þegar fólk metur gæði starfa eru laun aðeins einn af þeim þáttum sem hafa áhrif á starfsánægju og eftirspurn eftir störfum.  Þættir eins og laun (fjárhagsleg umbun), vinnutími, vinnuumhverfi, skipulag, samstarfsfólk, verkefnin, ímynd starfsins, ímynd fyrirtækisins og margt fleira eru hluti af "heildarumbun" fólks fyrir starfið.  Mín spurning er, hafa hinir ólíku þættir sem að lokum koma saman í heildarumbun sama vægi hjá körlum og konum?  Hefur launahlutinn sama vægi hjá körlum og konum?  Vega t.d. lengra jólafrí, páskafrí og langt sumarfrí kennara þyngra hjá konum en körlum t.d. vegna þess að viðkomandi fyrirkomulag er mjög fjölskylduvænt eða "gömlu" gildin um karlinn sem skaffara eru enn við líði undir niðri þótt við viðurkennum það ekki?  

EF karlar vega launaþáttinn þyngra en konur vega laun þá er viðbúið að þær sætti sig við lægri laun því það eru aðrir þættir að skipta þær meira máli?

EF það eru aðrir þættir að skipta þær meira máli, þurfum við þá að taka þá þætti inn í mælinguna þegar við metum kynbundinn mun á umbunum karla og kvenna?  Ættum við að vera að mæla kynbundna heildarumbun í stað kynbundins launamunar?  Ég er ekki viss en gagnvart viðkomandi starfsmanni er það auðvitað heildarumbunin sem skiptir máli.  Við getum svo auðvitað spurt okkur hver sé ástæðan fyrir mismunandi vægi þáttanna milli kynja, sé mismunurinn til staðar á annað borð.

Ég veit ekki hvort eða hvernig þetta hefur verið rannsakað en það væri vissulega áhugavert.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 2.5.2007 kl. 00:47

3 identicon

Eitt sem mætti athuga. Láglaunustu stéttir þessa lands eru kvennastéttir eins og við vitum öll. Ég er að vinna á hjúkrunarheimili og ég gerði smá skoðanakönnun meðal starfsystra minna. Margar þeirra er t.d. einstæðar mæður og meðalaunin eru fyrir skatta 135 þús. (þær eru margar ómenntaðar) þegar ég spurðist fyrir um afhverju í ósköpunum þær væru nú í þessu starfi sem gerði það að verkum að þær væru við sultarmörk var svarið yfirleitt vinnutíminn. þær verða að vera búnar að vinna kl. 4 svo þær geta sótt börnin í leikskólan og svo. fr.

Einstæðar mæður eru á margan hátt þrælar kerfisins í dag. Og ef þær eiga ekki sterkan að, þá er oft erfitt fyrir þær að fara í meira nám vegna skorts á fjármunum og tíma.

Það er orðið ansi brýnt að hækka láglaunustu kvennastéttir þessa lands.. Því það eru þær sem halda þessu velferðarsamfélagi uppi.

Björg F (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 00:59

4 Smámynd: Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir

Kæra Guðfinna,  

Fyrirsögnin á færslunni þinni er "Útrýmum kynbundnum launamun" en þú leggur ekki fram neinar lausnir nema að ræða saman ? Við erum búin að ræða um þessi mál í áratugi - hvernig væri að bjóða upp á aðgerðir ?

Svo ég spyr upp á hvaða lausnir bíður þú? einhverja sem þér og þínum flokki hefur ekki dottið í hug að nota síðustu 16 árin á sama tíma og árangurinn hljóðar upp á 0% sbr. nýleg rannsókn fyrir félagsmálaráðuneytið sýndi fram á.

Kannski  "allt að koma" aðferðina áfram ?

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, 2.5.2007 kl. 01:21

5 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Góð grein Guðfinna. Ég gerði smá könnun í mínu nánasta umhverfi þar sem ég spurði nokkra karla hvort þeim þætti eðlilegt að mennirnir sem gerðu við bílinn þeirra fengju greiddar um 3.000.- kr. á tímann (verkstæðið innheimtir ca. 8.000.- kr. á tímann) en konan sem gætti barna þeirra fengi ekki nema ca. 800.- kr. á tímann og þeim fannst það bara allt í lagi.

Mig grunar að þetta sé nokkuð almenn skoðun og á meðan svo er munu þessi mikilvægu störf og önnur umönnunnarstörf halda áfram að vera láglaunastörf. Við þurfum  bara að byrja á því að breyta þessu gildismati og þá .....

Þóra Guðmundsdóttir, 2.5.2007 kl. 01:51

6 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Æi Bryndís, ekki detta í skotgrafahernaðinn þótt það séu að koma kosningar.  Vertu frekar þátttakandi í málefnalegri umræðu. Það segir meira um þig sem alvöru stjórnmála en skotgrafahernaðurinn.

Athyglisvert Þóra og Björg.  Ég starfa við launamál og þannig er það bara að á yfirborðinu (í orði) er sátt um að hækka laun þessa fólks EN stéttarfélög og aðrir hópar sem bera sig saman við þessa hópa eru samt ekki sátt við að þessir hópar fari yfir aðra hópa eða verði sambærilegir öðrum samanburðarhópum.  Þá koma nefnilega þeir hópar og segjast hafa dregist aftur úr.  Niðurstaðan er sú að það er einfaldlega ekki sátt um það í þjóðfélaginu (á borði en ekki bara í orði) að þessir hópar fái hækkanir umfram aðra.

Þegar Reykjavíkurborg hækkaði laun sinna lægstu hópa nokkuð í desember 2005 þá komu öll hin félögin, heimtuðu sömu hækkanir og fengu töluvert af þeim.  Niðurstaðan var sú að röðin breyttist ekki neitt heldur hækkuðu launin bara upp alla línuna.

Þangað til þessi pólitíska sátt næst mun ekkert breytast.

Annað, núna eru kosningar.  Þessi mál eru EKKI í brennidepli í umræðunni.  Það er ENGINN með lausnir í þessum málum vegna þess að ofangreind sátt er EKKI til staðar í samfélaginu, meðal kjósendanna.  Allir segja: "Þær mega alveg hækka, svo lengi sem ég hækka líka eða þær fara ekki upp fyrir mig".

"Ekki ég" sagði litla gula hænan.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 2.5.2007 kl. 11:00

7 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Annað Þóra, vandamálið er að konurnar taka störfum sem gefa 800 kr. á tímann.  Karlarnir myndu aldrei ráða sig í vinnu fyrir þessi laun.  Þau breytast ekki á meðan það er framboð á fólki til að vinna þau fyrir þennan pening.  Laun eru greiðsla fyrir tíma starfsmannsins og lúta einfaldlega framboði og eftirspurn eins og annað á markaði.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 2.5.2007 kl. 11:06

8 Smámynd: Andrea

Þetta er mjög góð grein.

Mikið væri allt einfalt og þægilegt ef hægt væri að smella fingri og finna þannig lausnir á öllum vandamálum samfélagsins. Þetta vandamál er hinsvegar ekki auðleyst enda rætur vandamálsins margabrotnar.

Nú er fólk að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa ekki komið með lausn á þessu vandamáli, þau 16 ár sem hann hefur setið í ríkisstjórn. Ég spyr á móti, hver er ykkar lausn?

Ég vona að svarið sé ekki að afnám launaleyndar eigi eftir að leysa vandamálið frá rótum?

Andrea, 2.5.2007 kl. 16:19

9 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Afnám launaleyndar mun vissulega koma jafnt niður á körlum og konum.  Konur og karlar sem standa sig vel munu fá minni umbun fyrir það umfram þá sem standa sig síður verði launaleynd afnumin.

Tillagan um afnám launaleyndar gengur út á að fyrirtækið megi ekki banna starfsmanninum að greina frá laununum sínum.  Einhvern veginn held ég þó að ef það verði gerð rannsókn á því 5 árum eftir lagasetningu, þá munum við komast að því að þeir sem þegja um launin sín verði með hærri meðallaun en þeir sem blaðra þeim í alla í kringum sig vegna þess að yfirmenn taka ekki sénsinn á að hækka þá málglöðu umfram fólkið í kringum þá því þeir blaðra því í allt og alla.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 2.5.2007 kl. 17:41

10 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Lykilatriðin eru í grein Guðfinnu hér að ofan og ég er sannfærður um að það sem vegur þyngst er fyrsta atriðið, ólík viðhorf kynjanna til launa og launakrafna. 

Ein skýringin á því kom líklega líka í greininni, í mismunandi vægi opinberra starfsmanna meðal kynjanna.  Ef 60% kvenna vinna hjá ríki og sveitarfélögum þá upplifa þær að það sé ekkert (eða alla vega MJÖG lítið) sem þær geti gert til að hafa áhrif á launin sín.  Þau séu greypt í stein í rígbundnum kjarasamningum.  Þannig er það hjá öllum vinkonum þeirra sem þær bera sig saman við.

Karlarnir, sem 80% vinna utan opinbera kerfisins, upplifa hins vegar allt annað umtal í sínum vinahóp.  Þeir geti haft mikil áhrif á eigin launaþróun og hafa því í gegnum tíðina sótt sér hærri laun handvirkt, kríað út yfirborganir og ýmislegt.

Getur þetta verið hluti af málinu?

Launamunur kynjanna er tvíþættur: Karlar og konur í SÖMU STÖRFUM fá oft mismunandi laun   OG    Kvennastörfin eru launum lægra.

Skoðum aðeins seinni þáttinn.  Hvernig gerum við eitthvað í því?  Það sem gerist þegar þeir lægstu eru hækkaðir í launum að þá koma öll stéttarfélögin til atvinnurekenda og heimta sömu PRÓSENTUHÆKKUN.  Niðurstaðan verður því sú að hækkunin fer alla leiðina upp stigann.

Ég held að þeir einu sem geti haft áhrif á þetta séu stéttarfélögin.  Ef þeim tekst að skapa "þjóðarsátt" sín á milli og milli sinna félagsmanna um að botninum verði lyft án þess að lyfta efri hæðunum eða að launaröðuninni milli hópa verði breytt innbyrðis þá held ég að stærsti björninn sé unninn.  Í dag er þetta bara þannig að ef einn hópur er 20% hærri en annar verður hann ósáttur þegar hann er bara orðinn 15% hærri en samanburðarhópurinn og kallar á bætt kjör.  Að bilið verði leiðrétt.  Einu aðilarnir sem geta klippt á þessa keðju eru stéttarfélögin með innbyrðis samkomulagi sín á milli um að breyta röðinni milli starfshópa.  Það verður hins vegar ekki auðvelt verk að sannfæra hina ýmsu hópa um það.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 2.5.2007 kl. 17:46

11 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Sigurður Viktor, þú þarft greinilega að lesa fræðin  þín betur. Litla gula hænan sagði nefninlega "Ég skal" og  "ég vil"

Þóra Guðmundsdóttir, 2.5.2007 kl. 20:42

12 identicon

Margt til í þessu sem þú segir Sigurður. Þú talar um að konur sætti sig betur við lág laun. Það er mikið til í því. Það var gerð rannsókn í Noregi meðal atvinnuþegna og þeir spurðir hvað það var sem skiptir þá mestu máli í vinnu. Langflestar konurnar töluðu um að þeim fyndist mikilvægast að líða vel í vinnunni og Langflestir karlmennirnir nefndu laun eða vald. Nú er það mikilvægt að rétt fólk sé í réttri vinnu. Í umönnunarstarfi er því mikilvægt að þar séu ráðnir einstaklingar sem unun hafa af starfinu sínu. Nú er það orðið þannig á mörgum stöðum að launin eru orðin það lág að ekki er lengur hægt að fá hæft fólk (nema á minni deild, H-1 Hrafnista, besta hjúkrunardeild í heimi ) það er þá ráðið erlent vinnuafl í staðin sem ekki talar einu sinni íslensku, eða getur rétt svo gert sig skiljanlegt. Þetta er öldruðum afar erfitt, ég tala nú ekki um aldraða með heilabilunareinkenni..

Þú Sigurður, talar um að þetta sé á ábyrgð verkalýðsfélagana.. það er ekki langt síðan að mínar stúlkur fóru í setuverkfall (þær hafa ekki verkfallsréttindi) og það var lengi beðið eftir svari frá ríkinu um hvað skildi gera. Hrafnista sagði að ríkið þyrfti að auka greiðslur til þeirra svo hægt væri að auka launinn. Þegar Steinunn Valdís lyfti ákv. grettistaki hér í borginni og hækkaði laun kvennastéttarinnar þá varð Sjálfstæðisfl. nú ekki ánægður með það og Einar Oddur skammaðist þar mest út af því til ósælla minninga. En ég er samt sammála þér að verkalýðsfélög kvennanna og þá sérstaklega Efling hefur alls ekki staðið sig undanfarin ár. Áður hét okkar verkalýðsfélag Sókn, þær sem voru í forsvari fyrir það voru sagðar vera Sjálfstæðiskonur (veit ekki hvað til er í því) en það var vitað mál og við vissum það alltaf.. Sókn var alltaf fyrst til að semja, það var aldrei neitt vesen. Samþykktu bara það sem þeim var boðið og punktur. Sókn og/eða Efling þarf að standa sig miklu betur í gerð kjarasamninga og reyna að fá samkomulag við aðrar stéttir hér í þjóðfélaginu.

Þegar skoðaðar eru kröfur íbúðarlánasjóðs um hvað einstaklingur með 2 börn þarf að hafa í lágmarksfræmfærslu bara fyrir fæði og mat + tilfallandi aukakostnað (hér er ekki tekinn inn í kostnaður við húsnæði eða bíl) þá er það 157 þús krónur á mánuði. það er meira en flestir einstaklingar sem vinna við aðhlynningu og er hjá Eflingu eru að fá útborgað eftir skatta fyrir 100% vinnu og vaktaálag. Spáið í því. Þessi kaupmáttaraukning sem er alltaf verið að tala um er eitthvað sem enginn í þessum störfum hefur orðið var við.. það er nú hinn kaldi sannleikur.

Björg F (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband