Dagur umhverfisins - sérstaða Íslands

Styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu hefur aukist mjög á síðustu fimmtíu árum.  Að óbreyttu mun sú aukning halda áfram af vaxandi þunga með geigvænlegum afleiðingum á hitastig jarðar og líf jarðarbúa.  

Ýmsar þjóðir hafa gripið til mótaðgerða til að draga úr styrk gróðurhúsalofttegunda og í undirbúningi eru lög og reglugerðir víða um heim. Evrópursambandið hefur ákveðið að beita sér fyrir 20-30% minnkun koldíoxíðlosunar (CO2) til ársins 2020, Bretar eru með löggjöf í undirbúningi um loftlagsmál og gera ráð fyrir 60% minnkun á CO2 losun til ársins 2050 og Íslendingar hafa riðið á vaðið og samþykkt lög um loftlagsbreytingar.

David Warrilow fulltrúi Breta í IPCC (Intergovernmental Panel for Climate Change) flutti erindi í Háskóla Íslands þann 10. apríl sl. Hann telur að þjóðir heims þurfi að grípa til aðgerða á næstu 10-15 árum til að bregðast við gróðurhúsavánni.  Hann benti á nokkrar aðgerðir í þessu sambandi m.a. mikilvægi þess minnka notkun jarðefnaeldsneytis í heiminum og auka vægi endurnýjanlegra orkugjafa, en á því sviði hefur Ísland algera sérstöðu meðal þjóða heims:

- Ríflega 70 % af orkunotkun hér á landi kemur frá endurnýjanlegum orkulindum

- Engin önnur þjóð nýtir endurnýjanlega orkugjafa í hærra hlutfalli en við

- Einungis um 3% af orkunotkun OECD þjóða kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum samkvæmt skýrslu alþjóðaumhverfisstofnunarinnar (tölur frá 2004)

Hér hefur á sl. 70 árum þróast þekking á jarðvarmaorku sem er einstök, þökk sé Jóhannesi Zoega og hans félögum.  Háskólarnir í landinu ásamt orkufyrirtækjum og einkaaðilum munu af krafti halda áfram rannsóknum og þróun á svið jarðvarma og vistvænna orkugjafa í framtíðinni.  Nú þegar þjóðir heims eru að setja sér markmið í tengslum við vistvæna orku liggja fyrir gríðarleg tækifæri sem við eigum að nýta okkur.  Ég tel að vistvæn orka, þekking og beislun á orkunni og framtíðarrannsóknir verði okkur verðmætari en olían Norðmönnum! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband