Virkjum kraft og frumkvæði kvenna

Ég hef óbilandi trú á íslenskum konum, krafti þeirra, dugnaði, metnaði og þrautseigju.  Sem rektor í HR fylgdist ég vel með þeim konum sem þar voru í námi og starfi.  Þvílíkur fjársjóður sem við eigum í ungu konunum okkar og reyndar í öllum konum. 

Hlutfallslega er atvinnuþátttaka kvenna hér á landi með því hæsta sem þekkist eða um 80%, margar þeirra helga sig störfum í þágu menntunar og heilbrigðisþjónustu.  Því kemur ekki á óvart að um 60% kvenna á íslenskum vinnumarkaði vinna hjá ríki og sveitarfélögum.  Þessa staðreynd benti Margrét Pála Ólafsdóttir á í erindi sem hún flutti í mars sl. en hún er formaður Samtaka sjálfstæðra skóla eins og margir vita.  Margrét Pála kallaði konur í opinberum rekstri vinnukonur kerfisins.    

Á undanförnum árum hafa ríki og sveitarfélög dregið mjög úr eigin atvinnustarfsemi.  Hér er ekki lengur rekin bæjarútgerð, ekki ríkisreknir bankar eða símafyrirtæki.  Íslenskir karlmenn starfa flestir í einkageiranum, einungis um 20% þeirra starfa hjá hinu opinbera. Undanfarin ár hafa þeir í auknum mæli stofnað eigin fyrirtæki.  Í GEM (Global Entrepreneurship Monitor) rannsókninni sem árlega er gerð í HR og í háskólum víða um heim til að kanna það hlutfall landsmanna sem stofna fyrirtæki og skapa störf kemur í ljós að við erum virkust Evrópuþjóða í frumkvöðlastarfsemi.  Ef við skoðum hins vegar hlut kynjanna kemur í ljós að hlutfall kvenna sem stunda frumkvöðlastarf er miklum mun lægra hér á landi en í nágrannalöndunum. 

Ég tek undir með Margréti Pálu og er sannfærð um að sjálfstæður rekstur t.d. í grunnskólum landsins muni leysa úr læðingi mikinn kraft og sköpunargleði.  Með sjálfstæðum rekstri köllum við fram frumkvæði til að skynja þarfir samfélagsins.  Á Íslandi eru hlutfallslega fáir grunnskólanemar í sjálfstæðu skólunum eða um 1%, en flestir starfsmenn skólanna eru konur. Fjölgun og efling sjálfstæðra grunnskóla myndi auka valkosti og styrkja um leið starfsemi allra grunnskóla, líka þeirra sem reknir eru af sveitarfélögunum.  Eðlilegt er að hlutfall barna sem stunda nám í sjálfstæðum skólum hér á landi verði svipað og í nágrannalöndunum eða um 10-12%.  Ég treysti konum vel til þess að taka frumkvæðið og takast á við þetta verkefni.    

Í heilbrigðiskerfinu starfa margar öflugar konur.  Vissulega er einnig mikið af tækifærum þar til að veita þjónustu á forsendum eigin rekstrar og efa ég ekki að konur stæðu sig vel í slíkum rekstri.    

Í einkarekstri í grunnskólum og heilbrigðiskerfinu geri ég ráð fyrir að ríkið fjármagni þjónustuna með þjónustusamningi við þá aðila sem uppfylla sett skilyrði.  Þannig er ekki horfið frá þeirri hugmyndafræði að ríkið greiði fyrir menntun og heilbrigðisþjónustu.  Í sjálfstæðum rekstri mun frumkvæði og kraftur kvenna framkallast og nýtast í þágu samfélagsins.  Þetta er ekki sagt til þess að varpa rýrð á þau störf sem nú eru unnin á vegum hins opinbera heldur til þess að fjölga valkostum bæði fyrir þá sem veita þjónustuna og hina sem þiggja hana.  Reynsla kvenna, stjórnunarstíll og kraftur á að njóta sín með margvíslegum hætti.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg G. Hansen

Þetta er nákvæmlega málið   heyr, heyr.

Vilborg G. Hansen, 24.4.2007 kl. 17:54

2 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Er það ekki sorgleg staðreynd að konur og landbyggðarfólk skuli í sífellu þurfa að berjast fyrir tilverurétti sínum í "nútíma" þjóðfélagi - hvernig stendur á því þegar flokkur sem hefur á að skipa sterkum konum eins og þér er búinn að vera við stjórnvölinn í öll þessi ár - tja maður spyr sig?!

Þorleifur Ágústsson, 26.4.2007 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband